news

Skert skólastarf á komandi vikum

17. 03. 2020

Upplýsingar frá fræðslu - og menningarsviði Garðabæjar

Heilbrigðisráðherra hefur að tillögu sóttvarnalæknis ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur í fjórar vikur frá miðnætti 15. mars 2020. Með takmörkun er átt við viðburði þar sem fleiri en 100 manns koma saman og verða þeir óheimilir. Samhliða verður skólahald takmarkað, einnig í fjórar vikur.

Í kjölfar takmarkana á skólastarfi vegna farsóttar (COVID 19) mun starfsemi leikskóla skerðast.

Samkvæmt 3. gr. auglýsingar um takmörkun á skólastarfi vegna farsótta er leikskólum heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi leikskólastarfi að þeim skilyrðum uppfylltum að börn séu í sem minnstum hópum og aðskilin eins og kostur er. Jafnframt skulu gerðar ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag.

Fyrirvari þessara aðgerða er stuttur enda um að ræða fordæmalausar aðstæður í samfélaginu. Leitast er við að skipuleggja starfsemina eins fljótt og auðið er í samræmi við fyrirmæli frá embætti Landlæknis og almannavörnum.

Útfærsla skipulagsins verður m.a. sú að leikskólar munu hafa allt að helming barna og starfsfólks í leikskólanum hverju sinni. Börn verða því með dvöl í leikskólanum annan hvern dag. Á starfsdeginum 16. mars mun leikskólastjóri hvers skóla setja upp skipulag um viðveru barna og senda til foreldra.

Með ósk um gott samstarf.

Eiríkur Björn Björgvinsson

sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs

© 2016 - 2021 Karellen