Leikskólastarf á aðventu

07. 12. 2018

Í leikskólum bæjarins er unnið fjölbreytt starf allan ársins hring. Jólaundirbúningur er ekki undanskilinn leikskólastarfinu á Bæjarbóli og margt sem börnin vinna í aðdraganda jóla. Í fyrsta lagi ber að nefna jólagjöf til foreldra, sem er unnin af börnunum í myndlist og reynt að nýta sem mest verðlausan efnivið. Jólagjöfin er að sjálfsögðu mikið leyndarmál sem ekki má uppljóstra um. Gjöfinni er pakkað inn og þar er einnig unnið með endurnýtingu þar sem sumir nýta til dæmis gömul dagblöð utan um gjafirnar. Eldri börnin skrifa sjálf á merkispjöldin. Aðventugjöf er einnig hefð á Bæjarbóli þar sem börnin skreyta litla krukku, setja í hana sprittkerti og gefa svo stolt foreldrum sínum. Söngurinn á sér fastan sess í starfi leikskólans allan ársins hring og jólalögin taka við af öðrum lögum. Börnin syngja saman í sal á föstudögum og kveikt er á aðventukransinum. Foreldrasamvera er einnig hluti af aðventunni en börnin bökuðu piparkökur í lok nóvember og buðu foreldrum sínum að smakka á herlegheitunum núna 5. desember. Foreldrafélagið hélt einnig piparskreytingadag á laugardaginn 1. desember og var mjög góð mæting á báða þessa viðburði. Þessar samverustundir í leikskólanum eru gefandi og skemmtilegar og hluti af samstarfi heimilis og skóla. Á döfinni er jólaballið og jólaleikrit og nóg um að vera dags daglega við útiveru, sköpun, leiki, söngva og sögur.
© 2016 - 2019 Karellen