news

Vikupóstur 15. febrúar

18. 02. 2019

Kæru foreldrar

Í vikunni hefur verið heilmikið um að vera. Á mánudaginn fóru börnin í gönguferð í vetrarveðri en stefnt er á að fara í gönguferðir á mánudagsmorgnum. Þá er gott að börnin séu mætt tímanlega til að komast með. Þau fóru stuttan hring að þessu sinni og lögð var áhersla á að ganga saman í hóp og veita hlutum í umhverfinu eftirtekt. Við erum svo heppin á Bæjarbóli að hafa fjölbreytt svæði nálægt leikskólanum t.d. leikvelli, fótboltavöll, svæði við skátaheimilið og góða göngustíga.

Í vikunni höfum við verið að æfa Hafið bláa hafið og sungum það í söngsal. Einnig voru börnin búin að búa til litla báta sem þau voru með í atriðinu. Katla Maren var kynnir og stóð sig vel. Í dag byrjaði einnig danskennslan en hún Dagný Björk er alveg snillingur í að gera dansinn skemmtilegan og fjörugan. Börnin voru alveg til fyrirmyndar og lærðu meðal annars hákarladans.

Í gær var leikrit í boði foreldrafélagsins um þá félaga Karíus og Baktus, sumir urðu ansi skelkaðir í byrjun en fengu þá bara að vera í fangi starfsmanna á meðan á sýningunni stóð.

María heimsótti okkur í gær, nú styttist í að drengurinn hennar fæðist en börnin fögnuðu henni vel.

Við minnum svo á að vera með nóg af vettlingum og hlýjum fötum þegar kalt og blautt er úti.

Fyrir hönd starfsfólks á Hnoðraholti

Anna Bjarnadóttir

© 2016 - 2020 Karellen