news

Vikupóstur 5. nóvember

07. 11. 2018

Takk fyrir síðustu vikur og góða mætingu í foreldrasamtöl síðastliðinn mánudag. Ef einhver sá sér ekki fært að mæta á mánudaginn en vill hitta mig þá er það sjálfsagt. Endilega hafa samband ef það er eitthvað og við finnum tíma.

Nýr mánuður hófst í síðustu viku. Nóvember verður blár hjá okkur og formið sem við vinnum með er þríhyrningur. Við leggjum áherslu á vináttu og æfum okkur í að skiptast á og sýna öðrum virðingu. Í hópastarfi munum við breyta aðeins til og hafa á dagskrá vinastundir með bangsanum Blæ. Þar munum við ræða ýmis mál sem tengjast vináttu og vinna með tilfinningar. Öll börnin fengu kynningar-stund með Blæ bangsa í síðustu viku og fengu bangsann sinn afhentan. Blær á heima í leikskólanum en þau mega alltaf fá hann ef þau vantar knús eða líður illa. Þetta er sem sagt vináttuverkefni sem Bæjarból er þátttakandi í og ég mun setja kynningarblað um verkefnið í hólf barnanna sem þið getið tekið með ykkur heim og skoðað.

Í fataklefa munum við fara í leiki en við munum reyna að kenna börnunum einn leik á viku. Þau hafa nú þegar lært leikinn ,,hver er undir teppinu" og eru í þessari viku að læra leikinn ,,Hvað tók ég". Þá setjum við þrjá hluti á gólfið, síðan fer teppi yfir hlutina og við segjum hókus pókus hvað tók ég, og kennarinn tekur burtu einn hlut. Börnin eiga síðan að finna út úr því hvaða hlutur hvarf.

Í listakrók í síðustu viku unnum við verkefni tengd hrekkjavöku en það var eins konar köngulóar þema hjá okkur alla vikuna. Við æfðum lög um köngulær og lásum sögur um köngulær. Þau föndruðu síðan köngulær og drauga. Á föstudaginn var flæði þar sem börnin fengu að leika sér þar sem þau vildu í leikskólanum. Það var mikið fjör og langflestir til í að skottast yfir á aðra deild og prófa nýtt dót þar.

Núna erum við að æfa lagið ,,Við erum vinir" í tilefni af Eineltisdeginum sem er á fimmudaginn. Við munum fara í sameiginlega vinastund þann dag og búa til okkar eigin vinasáttmála öll saman. Sáttmálinn verður síðan sýnilegur bæði börnum og foreldrum í fataklefanum. Lagið munum við syngja í söngsal á föstudaginn og Brynjar ætlar að vera kynnir. Í listakrók eru börnin að prófa að vatnslita í fyrsta skipti og læra það. Þau búa til snjó mynd, vatnslita með bláum og skreyta með glimmeri og bómul. Í borðvinnu æfa þau sig að teikna og í fataklefa halda þau áfram í leikjum. Við lesum einnig bækur um vináttu og hvernig maður getur verið góður vinur.

Það var virkilega gaman í dag því allt í einu var kominn snjór úti. Börnunum fannst það mjög merkilegt og þau skemmtu sér konunglega við að borða snjóinn og prófa að renna sér á þotum. Við vonum innilega að veðrið verði áfram svona milt og gott eins og það var í dag. Það er mjög gott að börnin komi með tvö sett af vettlingum með sér og jafnvel tvær húfur, því ef við förum út tvisvar á dag er gott að hafa auka þar sem þetta á til að blotna.

Ég vil einnig minna á að á mánudögum eru hreyfistundir hjá Kötlu í salnum og hún biður um að börnin séu ekki í sokkabuxum þann dag, því þau þurfa að fara úr sokkunum fyrir tímann. Það er partur af tímanum að æfa sig að fara úr og í sokka.

Takk kærlega fyrir

Heiða

© 2016 - 2020 Karellen