news

Vikupóstur 26. mars

26. 03. 2019

Hæ hó

Í þessari viku erum við í hópastarfi að mála og líma bleikt svín og sulla í vaskinum. Síðasta vinastundin í bili er á dagskrá og þar prófum við að nudda hvert annað, en það fylgir með vináttu-verkefninu sérstök nudd-bók sem inniheldur sögur og alls konar nuddhreyfingar fyrir börnin að gera við hvert annað. Við erum auk þess að ræða um hvernig okkur líður í leikskólanum og föndra verkefni í tengslum við það. Í dag gerðum við svo málverk af útisvæðinu á leikskólanum, vatnslituðum og límdum sand á myndina.

Þóranna var einnig með tónlistarstund í dag og vill koma því á framfæri hvað börnin eru að standa sig vel, og hvað þau eru dugleg að hlusta í stundunum og fylgja fyrirmælum. Þau hafa virkilega gaman af þessum stundum og bíða spennt á hurðinni eftir að verða kölluð inn.


Í lesmáli lesum við Regnbogalestina á Regnbogabæ og leggjum lokahönd á litaumræðu vetrarins. Við eigum eitt form og einn lit eftir sem verður í apríl, appelsínugul stjarna. Bókaormur vikunnar er Finnbogi og hann kom með bók um Depil. Hann átti einnig 2.ára afmæli á sunnudaginn og við héldum upp á það í gær. Óskum honum aftur innilega til hamingju með daginn ????

Gönguferðin á Bókasafnið gekk mjög vel í síðustu viku og allir skemmtu sér konunglega. Það var vel tekið á móti okkur, við hlustuðum á skemmtilega sögu um hann Elmar, fengum myndir af honum til að lita og fengum að skoða bækur og leika okkur. Þetta var virkilega vel heppnuð ferð en við stefnum á eina ferð þangað í viðbót í maí. Ég læt fylgja með stutt myndband úr ferðinni :)

Við héldum síðan glæsilegt danspartý með Blæ á föstudaginn sem gekk mjög vel. Allir náðu í sinn bangsa og buðu honum formlega upp í dans. Við dönsuðum síðan við vinalögin og fórum í halarófu um allan leikskólann. Í lokin settumst við í hring og létum einn Blæ ganga á milli okkar meðan við hlustuðum á fallega vinalagið. Allir fengu því Blæ í hendurnar einu sinni og gáfu honum knús. Börnin voru svo dugleg að bíða og rétta næsta manni, þau taka þessu nefnilega mjög alvarlega. ????

Við erum farin að huga að páskunum og byrjuð að spjalla um þá hátíð og föndra fyrir páskaskraut, erum t.d. búin að gera unga og kanínu. Veðrið hefur skánað örlítið og við getum þar af leiðandi verið meira úti. Þeim finnst ekkert skemmtilegra en að fara út í grengjandi rigningu og sulla í pollunum og við reynum að leyfa þeim það eins oft og hægt er.

Ég vil minna á skráningu í foreldrasamtöl fyrir þá sem eiga eftir að skrá sig, og einnig minna á sumarleyfisblöðin sem þarf að skila í síðasta lagi á föstudaginn (fyrir mánaðarmót).

© 2016 - 2021 Karellen